Samfélagsleg ábyrgð

Íslandshótel taka virkan þátt í samfélaginu með því að sýna ábyrgð og veita styrki til þarfra málefna. Þar eru umhverfismál, forvarnarmál og líknarmál fremst í flokki. Að auki veitum við fjölda styrkja til íþróttafélaga og menningarviðburða.

Hér má sjá brot af þeim samstarfsaðilum sem hafa verið okkur hugleiknir undanfarin misseri.


Fjölskylduhjálp Íslands. Samtökin starfa í þágu kvenna, karla og barna í neyð. Þörf fyrir starfsemi sem þessa hefur farið vaxandi undanfarin ár en starfsárið 2012 til 2013 úthlutaði Fjölskylduhjálp Íslands yfir 30.000 mataraðstoðum samanborið við 15.000 árið 2006.

Þeir hópar sem leita helst til samtakanna eru öryrkjar, atvinnulausir, einstæðar mæður og feður, eldri borgarar, lágtekjufólk og einstæðingar. Þörfin er mikil.


Umhyggja. Styrktarfélag langveikra barna sem vinnur að bættum hag þeirra og fjölskyldna. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna ásamt fagfólki innan heilbrigðiskerfisins.

Helstu stefnumál félagsins eru að veita upplýsingar um þarfir langveikra barna og benda stjórnvöldum á þær þarfir, hvetja til úrbóta á aðbúnaði veikra barna ásamt því að stuðla að samvinnu innlendra jafnt sem erlendra félaga með sambærilegri stefnu að leiðarljósi.


Gigtarfélag Íslands. Félagið telur í dag yfir 5.100 virka félaga en félagið stendur fyrir hópþjálfun(leikfimi) fyrir gigtarfólk, í sundlaug og í sal,  heldur námskeið og fræðslufundi um gigtarsjúkdóma og tengd efni.

Helstu markmið félagsins eru að auka lífsgæði fólks með gigtarsjúkdóma og berjast gegn gigtarsjúkdómum með því að stuðla að almennri umræðu um þá og áhrif þeirra á einstaklinga og samfélagið, efla meðferð og endurhæfingu o. fl. 


Samhjálp. Félagasamtök sem hafa starfað að góðgerðarmálum og hjálparstarfi í rúm 40 ár ásamt því að standa vaktina fyrir þá sem hafa átt við áfengis- og fíkniefnavandamál að stríða.

Markmið samtakanna eru að aðstoða þá einstaklinga sem hafa lent undir í lífinu vegna sjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála, með því að stuðla að velferð og sjálfsbjörg þeirra. 


AHC samtökin á Íslandi. AHC stendur fyrir „Alternating Hemiplegia of Childhood“ sem er sjaldgæfur taugasjúkdómur sem lýsir sér með lömunarköstum þar sem einstaklingurinn lamast öðrum megin eða báðum megin líkamans. Samtökin voru stofnuð árið 2009 af Sigurði Hólmari Jóhannssyni og Ragnheiði Erlu Hjaltadóttur en þau eru jafnframt foreldrar Sunnu Valdísar, fyrsta AHC sjúklingsins á Íslandi.

Verndari samtakanna er Ólafur Darri Ólafsson, leikari, en tilgangur þeirra er að stuðla að vitundarvakningu um tilvist sjúkdómsins, veita aðstandendum og sjúklingum stuðning og kynna rannsóknir á sjúkdómnum.


Krabbameinsfélagið. Félagið var stofnað árið 1951 og er í dag byggt upp af þrjátíu smærri aðildarfélögum. Tilgangur félagsins er að styðja og efla baráttuna gegn krabbameini, t.d. með því beita sér fyrir virkri opinberri stefnu þegar kemur að forvörnum, greiningu o.fl., stuðla að þekkingu, efla krabbameinsrannsóknir ásamt fleiri markmiðum.

Kraftur. Stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og er ætlað að sinna þörfum þess ásamt aðstandendum þeirra. Helstu markmið félagsins eru að vinna markvisst að velferð og þeim málefnum er varða andlegar og félagslegar þarfir þessa unga fólks. 


Forvarnarfræðsla Magga Stef er verkefni sem fræðir börn, unglinga og foreldra þeirra um skaðsemi fíkniefna, tölvu- og netmálefni, eineltismál o.fl.

Magnús Stefánsson, sem er framkvæmdastjóri og fræðslufulltrúi verkefnisins, hefur starfað í forvörnum á vettvangi skóla og fyrirtækja um þessi sömu málefni í 15 ár.


Skógrækt Reykjavíkur. Sjálfstætt starfandi áhugamannafélag um skógrækt í Reykjavík en hlutverk þess er að efla skógrækt og skógræktaráhuga í Reykjavík. Meðal viðfangsefna félagsins er umsjón Heiðmerkursvæðisins en þar eru verkefnin mörg, þar með talið umhirða svæðisins, gróðursetning trjáa, grisjun skóga og lagning nýrra göngustíga.

Önnur svæði sem vert er að nefna sem eru í umsjá félagsins eru Esjuhlíðar og Reynivellir í Kjós. 


Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Stofnunin starfar innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Stofnunin var sett á laggirnar árið 2001 í tengslum við 90 ára afmæli Háskólans en frú Vigdís Finnbogadóttir hefur veitt stofnuninni liðveislu sína í uppbyggingarstarfi hennar.

Háskólinn veitir stofnuninni árlegt framlag en jafnframt hefur hún notið liðsinnis styrktaraðila í tvo sjóði: Styrktarsjóð Stofnunar Vigdíar Finnbogadóttur en markmið hans er að stuðla að vexti og viðgangi stofnuninnar, ásamt Byggingarsjóði alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar en markmið hans er að reisa menningar- og tungumálabyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.


UNICEF. Barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna, er leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum og berst fyrir réttindum allra barna ásamt því að sinna bæða langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. 

Samtökin starfa í yfir 190 löndum og er velferð barna ávallt höfð að leiðarljósi, hvar sem þau eru að finna en UNICEF leggur áherslu á að ná til þeirra barna sem helst eiga undir högg að sækja.


Við viljum einnig leggja okkar að mörkum til þess að efla ungmennastarf og íþróttaþátttöku ungs fólks. Þess vegna styrkjum við reglulega ýmis íþróttafélög. Eftirtalin félög eru aðeins dæmi um þau fjölmörgu félög sem við höfum styrkt undanfarin ár.

Styrkjanefndin okkar hittist í hverjum mánuði til að fara yfir styrkjabeiðnir og er öllum umsóknum svarað. Það er okkur sönn ánægja að styrkja viðurkennd hjálparsamtök og við tökum öllum ábendingum um þörf málefni fagnandi.

  • Badmintonfélag Reykjavíkur.
  • Sunddeild Breiðabliks.
  • Íþróttafélagið Völsungur á Húsavík.
  • Körfuboltafélagið Patrekur á Patreksfirði.
  • Skíðafélag Dalvíkur.
  • Knattspyrnufélagið FRAM.
  • Sundsamband Íslands.