Til baka í fréttir

Óskar Finnsson til Íslandshótela

Óskar Finnsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.

Óskar Finnsson til Íslandshótela

Íslandshótel reka 18 hótel sem eru meðal annars Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Fosshótelin sem eru staðsett víðsvegar um landið. Fyrirtækið er í örum vexti en innan hótel keðjunnar munu starfa um 1000 manns í sumar og á síðasta ári seldust um 500.000 gistirými. Mikil uppbygging á sér stað hjá Íslandshótelum og nýlega opnaði Fosshótel Jökulsárlón sem er glæsilegt 4 stjörnu hótel á Hnappavöllum og býður upp á 104 herbergi. 

Óskar hefur starfað við veitingarekstur og ráðgjöf frá árinu 1990. Óskar var annar af eigendum Argentínu steikhús frá 1990 til 2003. Síðastliðin 13 ár hefur starfsvettvangur hans aðallega verið í Bretlandi og á Spáni þar sem hann hefurverið búsettur. Óskar hefur einnig stýrt fjölda matreiðsluþátta í sjónvarpi ognú síðast þættinum Korter í kvöldmat á mbl.is sem nýtur mikilla vinsælda.

Íslandshótel áforma að opna tvö ný hótel á næstu árum ásamt því að sinna enn frekari uppbyggingu á þeim hótelum sem fyrir eru. ,,Ráðning Óskars sem framkvæmdastjóra rekstrarsviðs er mikilvægur liður í endurskipulagningu fyrirtækisins til að efla og styrkja starfsemina“ segir Davíð Torfi Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela.

Óskar er kvæntur Maríu Hjaltadóttur og eiga þau þrjú börn.