Íslandshótel einn aðal bakhjarl yfirlýsingar um ábyrga ferðaþjónustu

Um 250 fyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsinguna um ábyrga ferðaþjónustu en það er Guðni Th. Jóhannesson sem er verndari verkefnisins.

Íslandshótel, ásamt 250 öðrum fyrirtækjum, skrifuðu undir yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu í Háskólanum í Reykjavík þann 10. janúar síðastliðinn. Yfirlýsingin var undirrituð að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th Jóhannessyni, en hann er einnig verndari verkefnisins. Auk undirskriftarinnar eru Íslandshótel jafnframt einn aðal bakhjarl verkefnisins ásamt Icelandair Group, Gray Line Iceland, Eimskip, Isavia og Landsbankanum.

Festa – Miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn standa að þessu verkefni í samstarfi við aðrar stofnanir og fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar. Með verkefninu verður stuðlað að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn um ókomna tíð. Helstu áherslu þættir verkefnisins eru að:

  1. Ganga vel um og virða náttúruna.
  2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
  3. Virða réttindi starfsfólks.
  4. Hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið.