Íslandshótel hlýtur Höfuðkraft 2025

Íslandshótel hlýtur Höfuðkraft 2025 fyrir jákvæð áhrif á samfélag, umhverfi og ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Höfuðkraftur

Íslandshótel hf. hlutu ferðaþjónustuverðlaunin Höfuðkraft 2025, sem afhent voru í fyrsta sinn á Ferðamálaþingi höfuðborgarsvæðisins í Bæjarbíói í Hafnarfirði 16. september s.l.

Höfuðkraftur er ný viðurkenning sem veitt er þeim fyrirtækjum og stofnunum sem með stefnu sinni og starfi hafa eflt ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt og samfélag.

Í umsögn dómnefndar segir að Íslandshótel hafi sýnt fram á sterka forystu í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð, ásamt því að hafa fengið fjölda vottana og viðurkenninga fyrir starf sitt.  Fyrirtækið var m.a. fyrsta hótelkeðjan á Íslandi til að hljóta sjálfbærnivottun fyrir öll sín hótel, fyrsta ferðaþjónustufyrirtækið á landinu til að hljóta Hinseginvottun Samtakanna ´78, fyrsta íslenska ferðaþjónustufyrirtækið til að undirrita svokallaða Glasgow-yfirlýsingu um loftslagsaðgerðir auk þess að hafa nýlega hlotið fékk viðurkenningu Viðskiptablaðsins og Keldunnar fyrir að vera Fyrirmyndafyrirtæki í rekstri 2025 og umhverfisverðlaun Terra fyrir framúrskarandi, markvissan og eftirtektarverðan árangur í úrgangsmálum.

„Við erum afar stolt af þessari viðurkenningu og lítum á hana sem hvatningu til að halda áfram á sömu braut,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela. „Höfuðkrafturinn er staðfesting á þeirri stefnu sem við höfum markað – að byggja upp ábyrga og sjálfbæra ferðaþjónustu í sátt við samfélagið.“

Verðlaunin voru afhent af Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, formanni stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.