Sterk staða Íslandshótela - Veruleg aukning rekstrartekna

Rekstrartekjur Íslandshótela jukust úr 7 milljörðum króna árið 2021 í 13,4 milljarða króna árið 2022, samkvæmt ársreikningi félagsins, en heildartap félagsins á árinu nam tæpum 95 milljónum króna. Vega þar þyngst áhrif Covid heimsfaraldursins og vaxtahækkana. EBIDTA afkoma Íslandshótela jókst úr 2 milljörðum króna árið 2021 í 3,3 milljarða króna árið 2022.

Viðsnúningur er í rekstri Íslandshótela samkvæmt uppgjöri ársins 2022 sem nú liggur fyrir, enda jókst fjöldi ferðamanna til landsins milli ára eftir að öllum sóttvarnaraðgerðum var aflétt í lok febrúar á síðasta ári, en áhrif faraldursins höfðu umtalsverð áhrif á meðalverð á gistinótt. Meðalverð á árinu 2022 náðu þannig ekki sambærilegum meðalverðum og árin fyrir faraldurinn, auk þess sem töluverður kostnaður féll til við enduropnun hótela. Þá vega áhrif vaxtahækkana þungt.

„Íslandshótel eru að vinna styrk sinn til baka eftir erfiða tima vegna Covid heimsfaraldursins, en eðli málsins samkvæmt tekur það tíma að ná vopnum sínum aftur eftir nærri 2ja ára hlé. Það hefur þó gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Reksturinn gengur vel þó kjarasamningsmál hafi reynst félaginu þungbær en það er bjart framundan, enda má reikna með að fjöldi ferðamanna til landsins aukist verulega og gæti orðið 2,3 milljónir á þessu ári,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela.

Íslandshótel er leiðandi afl í íslenskri ferðaþjónustu og rekur 18 hótel með 1940 herbergi á lykilstaðsetningum um land allt. Fyrirtækið er styrk stoð í þessari sívaxandi atvinnugrein og mun halda áfram að vera fyrsti valkostur þeirra sem velja hótelgistingu á Íslandi.