Íslandshótel hlýtur Menntaverðlaun atvinnulífsins 2021

Íslandshótel hlýtur Menntaverðlaun atvinnulífsins 2021 fyrir stefnumiðaða og markvissa vinnu í fræðslu- og menntamálum starfsmanna. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin til Davíðs T. Ólafssonar framkvæmdastjóra, Ernu Dísar Ingólfsdóttur framkvæmdastjóra mannauðs- og gæðasviðs og Stefáns Karls Snorrasonar starfsþróunar- og gæðastjóra.

Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt því fyrirtæki sem þykir skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Þetta er í áttunda sinn sem verðlaunin eru veitt á Menntadegi atvinnulífsins sem er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Jafnframt er veitt viðurkenningin Menntasproti atvinnulífsins. Mennta- og Menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir,  afhenti fulltrúum Domino‘s þá viðurkenningu og óskar Íslandshótel starfsmönnum Domino‘s innilega til hamingju. „Færni til framtíðar“ var yfirskrift Menntadagsins í ár.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir útnefningu Íslandshótela er bent á að félagið hefur á markvissan hátt tengt saman uppbyggingu á fræðslu og þjálfun starfsfólksins við heildarstefnumótun sína, sem tryggir að allt starfsfólk þess fær staðlaða, markvissa og stefnumiðaða fræðslu. Fjölbreytt fræðslustarf er innan félagsins en þar starfa lifandi faghópar starfsmanna sem fanga þá þekkingu sem býr í starfsfólkinu, greina fræðsluþörf og skapa fræðslu sem styður við markmið félagsins um faglega þjónustu, öfluga liðsheild og ánægða viðskiptavini. Félagið leggur áherslu á að nýta tækni og fjölbreytt verkfæri til að tryggja aðgang allra starfsmanna að sömu tækifærum þegar kemur að fræðslu og starfsþróun ásamt því að vera með greinagóða mælikvarða um fræðslustarfið. Þá hefur félagið lagt ríka áherslu á samstarf milli skólakerfisins og atvinnulífsins með þáttöku í verkefnum, námskeiðum, setu í ráðum og nefndum ásamt því að vera með nema í starfs­þjálfun og hvetja til raunfærnimats starfsfólks.

Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs Íslandshótela:

„Það er okkur mikill heiður og hvatning til framtíðar að hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins, en að baki þessa heiðurs standa starfsmenn Íslandshótela. Til að byggja upp gæði þá þarf góða þekkingu og þekkingarstjórnun. Reynsla okkar hér hjá Íslandshótelum er að framúrskarandi árangur náist með því að fá raddir allra starfsmanna að borðinu þegar kemur að því að skapa nýjar lausnir og stuðla að framþróun. Þá er lykilatriði að þekking og fræðsla starfsmanna sé greipt í stefnu og menningu fyrirtækisins, og að árangur hennar sé mældur í rauntíma. Stærsti auður Íslandshótela er starfsfólkið en þegar mest lætur starfa hjá okkur rúmlega 1000 starfsmenn frá 49 þjóðernum. Það skiptir því miklu máli að taka tíma til að rækta fólkið okkar og mæta fjölbreyttum þörfum þegar kemur að fræðslu- og þjálfun ásamt því að stjórnendur fyrirtækisins skilji samspil hæfni, starfsánægju, þjónustu og arðsemi. Það er fjárfesting til framtíðar.“

Menntadagur atvinnulífsins fór fram með rafrænum hætti að þessu sinni. Hér má sjá stutt myndband frá verðlaunaafhendingunni