Íslandshótel fyrsta ferðaþjónustufélagið til að hljóta Hinsegin vottun Samtakanna '78
Fræðsla til 1.100 starfsfólks af 58 þjóðernum

Íslandshótel hafa hlotið Hinsegin vottun Samtakanna '78 og eru þar með fyrsta ferðaþjónustufélagið á Íslandi til að hljóta þessa vottun. Markmið vottunarinnar er að styðja fyrirtæki og stofnanir í að skapa öruggt og mannúðlegt umhverfi fyrir hinsegin fólk, bæði starfsfólk og viðskiptavini.
Ferlið hófst í nóvember 2023 þegar skrifað var undir samning við Samtökin '78 og fór þá af stað umfangsmikil vinna sem tók nærri tvö ár að ljúka. Íslandshótel er stór og flókinn vinnustaður með 17 hótel víðsvegar um landið ásamt höfuðstöðvum félagsins, og því þurfti ítarlega áætlun, fræðslu og úttektir til að tryggja að allt starfsfólk gæti tekið þátt.
Allt stjórnendateymið og starfsfólki, um þúsund einstaklingar af 58 þjóðernum, var veitt fræðsla frá Samtökunum '78. Einnig voru framkvæmdar úttektir og kannanir á vinnustaðnum. „Þegar fyrirtæki er jafn stórt og dreift og Íslandshótel tekur vottunarferlið tíma,“ segir Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og gæðasviðs Íslandshótela. „En fyrir okkur var þetta mjög mikilvægt. Starfsfólkið okkar kemur úr ólíkum menningarheimum, með ólík trúarbrögð og bakgrunn, og við viljum tryggja að öll upplifi sig velkomin og örugg, óháð kynhneigð, kynvitund eða öðrum þáttum sem snerta fjölbreytileika og mannréttindi.“
Starfsfólkið tók afar vel í fræðsluna frá Samtökunum '78 og upplifði ferlið sem mikilvægt og jafnvel persónulegt. Margt starfsfólk opnaði augun fyrir málefnum sem þau höfðu kannski ekki áður velt mikið fyrir sér.
Í kjölfar vinnunnar við Hinsegin vottunina voru gerðar ýmsar umbætur innan Íslandshótela. Má þar nefna að allt innra og ytra efni félagsins var yfirfarið með kynhlutleysi að leiðarljósi, kynja merkingar endurskoðaðar þar sem við á og reglur um einkennisfatnað tekið til endurskoðunar. Þessar breytingar tryggja aukna virðingu, val og jafnrétti fyrir öll.
Íslandshótel taka á móti þúsundum gesta hvaðanæva að úr heiminum á hverju ári. Hinsegin vottunin staðfestir að félagið tekur skýra og virka afstöðu með fjölbreytileika, mannréttindum og jafnrétti. Markmiðið er að allir gestir, hvort sem þau eru að bóka fundi, gistingu, fara á barinn eða borða kvöldmat, upplifi sig velkomin, örugg og virt, óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu.
„Við erum mjög stolt af því að vera fyrsta ferðaþjónustufélagið til að hljóta Hinsegin vottun,“ bætir Erna Dís við. „Ferðaþjónustan snýst um að bjóða fólk velkomið og það á að gilda um öll. Þetta snýst ekki eingöngu um að fá vottun, heldur um að skapa vinnustað og samfélag þar sem öll geta verið þau sjálf, án ótta og feluleiks. Fyrir mig persónulega hefur þetta verið þýðingarmikil vegferð sem hefur kallað fram ábyrgð, þakklæti og sanna löngun til að leggja mitt af mörkum.“
“Samtökin ´78 fagna því vel og innilega að Íslandshótel hafi lokið hinsegin vottunarferlinu og stuðlað þannig að vinnustaðamenningu sem fagnar fjölbreytileikanum í allri sinni mynd,” segir Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78.
Aðrir sem hafa áður hlotið Hinsegin vottun eru Forsætisráðuneytið, Þjóðskrá Íslands, Rio Tinto, Ölgerðin og Lota verkfræðistofa.